materials:
Mixed material, plaster, metal, old household appliances and unnecessary debris

 

„Ég er „hoarder“.

Amma mín er líka „hoarder“ og alltaf að gefa mér gamalt dót.

Dótið okkar ömmu hefur smám saman verið að fylla heimili mitt og stúdíó.

Það sama og gerðist smám saman innra með mér þar til ég tók algera U-beygju.“

Sunneva Ása Weisshappel

 

Drasl sem er afurð fjölda- og offramleiðslu liggur í myrkri þar sem fegurð þess er hulin og öllum gleymd. Plast, segjum við. Einnota. Ódýr kátína sem smyglar sorg og ljótleika inn í daglegt líf. En þá kemur náðin til sögunnar; hin líknandi hönd sem tínir saman brotin, setur þau saman á nýjan hátt og leiðir nýskapnaðinn inn í ljósið. 

   Með því að setja ólíka hluti saman verður til myndmál. Með uppfyllingu verða til form og skúlptúrar sem koma að innan. Formin umbreytast og tilgangur fæðist. Sú einfalda athöfn að losa sig við uppsafnað drasl byrjar smám saman að öðlast merkingu. Myrkur verður ljós.

   Umbreytingin kostar ómæld átök. Eins og að snúa trukki á fullri ferð um 180 gráður. Hvernig gerir maður það?

   Um leið er þetta ekki annað en lífrænt ferli. Þolinmæðisverk sem einungis verður unnið með því að gefast aldrei upp og jafnframt að afsala sér allri stjórn. Þannig verður til hámenningarlegt kitsch. Rókókó úr drasli sem annars hefði farið á haugana. Sunneva Ása Weisshappel rekur stefnumótaþjónustu fyrir lágkúru og hámenningu. Sorp verður safngripir. Verði lampi. Verði ljós. Verði spegill. Verði afskræmd, lífræn fegurð. Verði ský með óljósum og óvæntum formum. Dulin heimspeki. Hversdagsleg dulspeki. Verði landslag. Landslag af nútímasamfélagi. Verði verðmæti.

 

   Guðrún Eva Mínervudóttir upp úr samtali við Sunnevu Ásu Weisshappel